Esperanto er tungumál

 

Esperanto er planmál sett saman af pólskum lækni af gyðingaættum, L.L. Zamenhof að nafni, og kom fyrsta kennslubókin í því út árið 1887 í Varsjá. Zamenhof gerði sér góða grein fyrir þeim hömlum sem ólík tungumál áttu sinn þátt í að skapa í samskiptum fólks af ólíku þjóðerni. Ástand sem ríkti í þeim efnum í heimaborg hans, Bialystok, skerpti skilning hans og jók áhuga á þessum efnum

 

Markmið esperantos er að auðvelda samskipti allra þjóða. Margs konar notkun þess í meira en eina öld hefur gert það að lifandi máli sem hæft er til að tjá hinar ýmsu

hugmyndir.

 

Esperanto er hlutlaust alþjóðamál því að það tilheyrir ekki neinni einstakri þjóð og gerir öllum jafn hátt undir höfði að tjá hugsanir sínar og skoðanir við þá sem eiga aðra tungu að móðurmáli.

 

Með því að læra esperanto og nota það getur þú öðlast nýja sýn í samskiptum við fólk af öðrum málsvæðum, á mállegum jafnréttisgrundvelli. Þá er mikið fjallað um samskiptamál í ýmsum ritum á esperanto, bæði í tímaritum, bókum og einnig á ráðstefnum. Margskonar bókmenntir hafa verið gefnar út á málinu, einkum í flokki fagurbókmennta. Ber þar mikið á þýðingum úr fjölda tungumála.

 

Meirihluti þeirra, sem nú leggja stund á nám í esperanto, gera það með aðstoð netsins. Einnig er hægt að læra það á námskeiðum og öðru hvoru er það kennt í fjölbrautaskólum (valgrein). (Sjá Íslenska esperantosambandið). Margir góðir esperantistar hafa fyrst og fremst lært málið með sjálfsnámi.

 

Alþjóðlegt samband esperantista (Universala Esperanto-Asocio ) veitir félagsmönnum sínum margvíslega þjónustu og birtir m.a. í árbók sinni skrá um þjónustufulltrúa í mörgum löndum. (Árið 2002, 2000 fulltrúar í öllum heimsálfum.) Þá bíður gistiþjónusta ungra esperantista ókeypis gistingu á 1231 heimili í 83 löndum. (Ár 2002). Skilyrði er að vera talandi á esperanto og eigandi gistilistans, skrár um gistingar sem sambandið gefur út. Þessi þjónusta er fyrir fólk á öllum aldri .

Esperanto hefur meira að bjóða en margur hyggur.

Aðsetur íslensku esperantohreyfingarinnar er á Skólavörðustíg 6b. (Sjá Esperantosambandið í símaskrá).

 

Fáeinar tilvísanir í netið:

 

Esperanto Course: www.cursodeesperanto.com.br

Íslenska esperantosambandið: www.ismennt.is/vefir/esperant/

Alþjóðlega esperantosambandið: www.uea.org

Um Esperanto á mörgum tungumálum: www.esperanto.net

Upplýsingar um Esperanto: www.esperanto.net/info/index_en.html

Esperanto (margar tengingar): www.webcom.com/~donh/esperanto.html